Þegar þessi leikur kom út (upprunalega á BBC tölvunum árið 1983) var tölvuleikjaheimurinn frekar rólegur. Leikirnir sem tröllriðu leikjaheiminum voru platform og arcade leikir, sem flestir voru eftirlíkingar af Pac-Man, Space Invaders eða Jet-Set Willy. Elite kom og breytti því öllu. Ímyndaðu þér hvað það hefur þýtt fyrir tölvuleikjaheiminn á þessum tíma, að fá leik sem var svona flókinn.
Söguþráðurinn er einfaldur. Þú er verslunar maður í geimnum á litlu skipi og aðal verkefnið þitt, í það minnsta í byrjun leiksins, er að flytja varning á milli pláneta. Hér fara hlutirnir að verða flóknir. Leikurinn inniheldur hundruði, ef ekki þúsundir pláneta til að skoða og hver ein og einasta er einstök. Það eru bæði tæknilega þróaðar plánetur (sem framleiða hátækni varning) og frumstæðar plánetur (sem framleiða þá aðalega hrávörur, ef eitthvað) og svo framvegis. Þær hafa líka mismunandi stjórnkerfi, sumar eru frjálslegri og leyfa frí viðskipti á meðan aðrar eru grimmari og skjóta þig við fyrstu sýn.
Í leikjum er geimurinn vitaskuld ekki tómur. Margar aðrar tegundir (ásamt skipunum þeirra) eru til í leiknum. Sumar eru friðsamlegar, aðrar ekki. Í byrjun leiksins er sniðugast að forðast bardaga, þar sem það er mjög auðvelt að rústa þér, en einnig skal hafa í huga að viðskipti við hættulegri plánetur eru gróðavænlegri. T.d. mun pláneta sem er í vandræðum með “sjóræningja” borga meira fyrir varning heldur en friðsamleg pláneta.
Þú getur líka ákveðið hvað það er sem þú vilt gera í leiknum. Þú getur haldið þér við það að vera bara einfaldur viðskiptamaður eða þú getur gerst sjóræningi og stolið varning úr öðrum geimskipum (en passaðu þig þá á löggunni). En sama hvernig þú spilar leikinn, aðal markmiðið er að græða peninga og öðlast frægð. Með því að eignast peninga geturðu bætt skipið þitt t.d. með betri vopnum og með því að öðlast frægð hækkarðu í tign. Hæsta tignin sem þú getur fengið er “Elite” staðan, en þú átt eftir að spila leikinn lengi vel áður en þú nærð því. Á hinum og þessum punktum í leiknum færðu verkefni. Verkefnin geta verið mismunandi, stundum eru þau einföld eins og að flytja pakka á milli pláneta, eða flóknari, eins og að drepa einhvern ákveðinn sjóræninga t.d.
Grafíkin í leiknum er mjög frumstæð miðað við nútíma staðla en hún kemur sínu til skila. Skipin og geimstöðvarnar (þar sem þú nærð í og selur varning) eru í svokallaðari “wire-frame” grafík, en hún kom á undan þrívíddinni. Litirnir eru mjög fáir en samt eins margir og CGA leyfir!
Hljóðið er ekkert yfirnáttúrulegt. Hljóðin í leiknum eru bara píp og eina tónlistin er á fyrsta skjánum og er klassískt verk.
Þrátt fyrir lélega grafík og hljóð er spilunin í leiknum rosaleg... Spáðu bara í því að þessi leikur, sem var framleiddur árið 1983, var fyrsti geimskoðunar leikurinn og fann upp á flokknum. Fyrir utan að hafa betri grafík, stærri stjörnuþokur og fleiri verkefni og óvini, að þá eru allir leikir í þessum sama flokk (eins og Frontier og Privateer og jafnvel nýrri en það) eru byggðir á Elite. Allir sem fíla þessa tegund leikja ættu að spila Elite, þó það væri ekki til annars en að sjá hvar þetta byrjaði allt saman.
Eitt að lokum. Þegar leikurinn byrjar þá spyr hann um orð úr bæklingnum. Skrifaðu bara hvað sem þú vilt, afritunar vörnin hefur verið fjarlægð.