Alien Trilogy er frekar vanmetin skotleikur og eiga margir eflaust eftir að vera ósammála fjarkanum sem ég gaf honum í einkunn. En þið ættuð að gefa leiknum annan séns og reyna að sjá kostina.
Alien Trilogy væri best líst sem blátt áfram skotleik, af því að þrátt fyrir sett markmið skiptir það í raun engu máli hvort þú klárir þau. Eins og í Doom þá þarftu bara að finna útganginn. Þetta þarf samt ekkert að vera slæmur hlutur af því að þeir sem vilja bara drepa nokkra óvini og halda áfram yfir í næsta borð verða ánægðir. Vopnin eru flott og þá sérstaklega fyrir þá Alien aðdáendur sem hafa alltaf langað í þeirra eigin smart byssu. Ég fílaði spilunina mjög vel en aðrir sem eru að leita eftir dýpri reynslu verða fyrir vonbriðum.
Alien Trilogy býður upp á skemmtilegar breytingar á svæðum og umhverfum eins og farangursgeymslu, djúpsvefnsklefum og sjálft geimveruhreiðrið. Það er samt lítil fjölbreytni í íbúum leiksin. Óvinir líta alveg nógu vel út til að þú sért sáttur en verða mjög kubbaðir þegar þeir koma nálægt þér og breytast í eitthvað svart og hvítt klessuverk. Sprengingarnar eru flottar og það er gaman að horfa á þær, en grafíkin er samt ekki að bjóða upp á neitt sérstakt.
Hljóðið er fínt en samt ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það geta komið upp vandamál eins og t.d. að ef leikurinn er keyrður upp undir Windows XP þá slökknar á hljóðinu. Þess vegna mæli ég með því að keyra leikinn upp í DOSBox en þá þarftu líka vel hraða PC tölvu. Hljóðið og tónlistin eiga ekki eftir að hafa nein rosaleg áhrif á þig en er samt alveg nóg fyrir upplifunina í leiknum.
Söguþráðurinn er frekar venjulegur, þú ert Lautinant Ellen Ripley og markmiðið þitt er að drepa geimverudrottningarnar og bjarga mannlegu vinum þínum frá útrýmingu. Í raun þarf leikurinn samt enga sögu þar sem þú ert hvort eð er bara að sprengja hluti.
Þar hafið þið það, mín skoðun er sú að Alien Trilogy er góður skotleikur sem á eftir að svala þeirri ofbeldisþörf sem þú hefur gagnvart geimverum. Njóttu þess bara að sprengja hluti í loft upp og að búa til læti af því að ef þú ert að leita að ævintýri með djúpum söguþræði þá verðuru fyrir vonbrigðum.